Jólasíða

Aðvenntan

Jólaandinn

Jólablóm

Jóladagarnir

Jóladagatalið

Jólaeftirvæntingin

Jólaföndur

Jólagjafir

Jólagrín

Jólahefðir

Jólakerti

Jólakveðjur

Jólakötturinn og Grýla

Jólaljós

Jólamatur

Jólanetkrækjur

Jólasagan

Jólaskraut

Jólasveinarnir

Jólasöngvar

Jólatréð

Jólaundirbúningur

Jólaupphafið og trúin

Efnisyfirlit

Gestabókin

 

Jólin mín

Undirbúningur jólanna hefur trúlega verið svipaður á flestum heimilum, allt þrifið og pússað, bakað og saumað.

Pabbi var mikill jólakarl, vildi að öllu væri tjaldað sem til var, og man ég sérstaklega þegar hann stjórnaði okkur yngri systkinunum við að gera jólaskraut úr kreppappír fyrir einhver jólin.

Jólatréð var úr sverri spýtu sem mislöngum spýtum var stungið í, efst stystu spítunum en neðst þeim lengstu. Tréð var síðan hulið með sortulyngi. Á hverja grein var sett jólakerti og á stórt kerti á toppinn, tréð var síðan skreitt með þeim kúlum sem til voru og jólakörfum sem voru gerðar heima, þær voru fylltar með nammi en þeim var svo deilt út á aðfangadagskvöld. Þegar búið var að skreita jólatréð var það sett ínn í herbergi og lokað, því við máttum ekki sjá það fyrr en á aðfangadagskvöld.

Aðfangadagur var mjög lengi að líða, því einhverra hluta vegna vöknuðu við óvenju snemma þann dag og vorum við á þeytingi framm og aftur með nefið ofan í öllu.

Maturinn á aðfangadag var venjulega borðaður á milli 4 og 5 og var það steik, úr því nýmeti sem til var hverju sinni. Ásamt brúnuðum kartöflum og þess háttar og í eftirmat var súkkulaðibúðingur.

Eftir matinn var pabba falið að hafa ofan af fyrir okkur svo aðrir fengju vinnufrið, en hann vildi helst láta okkur sitja kyrr og bíða, og gekk það fremur illa. Náði hann þá í kíkinn sinn og kíkti hvort hann sæi nokkuð til jólanna. Meðan hann sá ekki til þeirra, þá var langt eftir en þegar þau voru komin upp í Hergilsey, var þetta heldur farið að styttast og þegar þau voru komin upp í Engey, þá voru þau alveg að koma. Eftir að jólin voru komin svona nálægt, máttum við byrja að klæða okkur í fínu fötin, og ekki var það nú minnsta tilhlökkunarefnið. Þegar því var lokið passaði venjulega til að klukkan var orðin 6 og áttum við krakkarnir þá að sitja grafkyrr og þögul og hlusta á messuna í útvarpinu. Að launum áttum við að fá 1 pakka þegar messan væri búin, þetta var ótrúlega erfitt svo að sjaldnast kom til þess að við fengjum verðlaunin. Á meðan við "hlustuðum" á messuna hafði fullorðna fólkið sig til og þegar allir voru tilbúnir var farið inn í stofu og allir óskuðu hvert öðru gleðilegra jóla. Nú var farið að ganga í kring um jólatréð, fyrst var sungið "Heims um ból" síðan voru sungin lögin "Í Betlehem er barn oss fætt", "Í dag er glatt í döprum hjörtum" og lag sem heitir "Þó augun ekkert sjái", en pabbi samdi textan við lagið Volga Volga, til minningar um Ragnhildi fyrri konu sína og var það alltaf sungið á aðfangadagskvöld. Barnalögin eins og til dæmis "Göngum við í kringum" og "Gekk ég yfir sjó og land" voru síðan sungin á jóladag.

Þegar búið var að syngja, las pabbi upp úr húslestrarbók.

Nú var loksins komið að því að fá pakkana og nammið í jólakörfunum, að ógleymdum eplum og appelsínum sem aldrei sáust nema á jólunum, og var nú nóg að gera hjá öllum um stund uns mamma sagði að nú væri komin tími til að fara að hita, en þá fóru hún og Gunna að hafa til kakó og kökur, þeyta rjóma og leggja á borðið. Nú fengu allir að drekka úr bollum, en það fanst okkur krökkunum mikið sport.

Eftir kakóið var haldið áfram að leika sér eða lesa, en það var stranglega bannað að spila á spil. Nú máttu allir vaka eins lengi og þeir gátu og var ekki óalgengt að það þyrfti að bera suma í rúmið og hátta og að sjálfsögðu var alltaf látið loga ljós á jólanótt.

Á Jóladagsmorgun var öllum fært kakó og kökur í rúmið, það var nú aldeilis sældarlíf, svo máttum við stripplast nokkra stund á náttfötunum, það er ef ekki var þess kaldara. Um miðjan daginn var síðan hangikjötið borðað með karteflumús og sveskjugrautur með rjóma á eftir, namm namm. Síðan var gengið í kringum jólatréð en eftir að því var lokið var jólatréð sett ypp á borð og farið í skollaleik. Ein jólin eru mér sérstaklega minnisstæð hvað varðar skollaleikinn, því þá vantaði í mig þrjár framtennur í efrigóm sem þýddi það að ég þekktist alltaf, skollinn, sá sem var-ann, þreifaði bara upp í mig.

Svona leið jóladagur hjá okkur krökkunum í gleði og ánægju en að sjálfsögðu þurfti fullorðna fólkið að sinna verkum bæði úti og inni.

Á annan í jólum fórum við oftast á jólaballið sem var haldið í samkomuhúsinu út á strönd, en dagarnir sem komu svo á milli hátíðanna voru óskup hversdagslegir, með hversdagsmat, sel og saltfiski, en daginn fyrir gamlársdag var tekið til við að skúra og þurka af og þess háttar svo að allt væri nú fínt á gamlársdag.

Gamlársdagur var hafður með svipuðu sniði og aðfangadagur, góður matur borðaður milli 4 og 5, gengið frá og farið í fínufötin fyrir 6, hlustað á messuna og gengið í kringum jólatréð. Nú voru sungin lög eins og "Nú árið er liðið", "Hvað boðar nýárs blessuð sól" og "Ólafur liljurós" en þá söng pabbi um allar álfkonurnar en við sungum viðlagið. Jólakörfurnar höfðu nú aftur verið fylltar af góðgæti og hengdar á tréð og var þeim deilt út.

Stundum var kveikt í smá brennu, en þegar klukkan var að verða 12, prílaði pabbi upp í kirkjuturninn og hringdi klukkunum, en þá var nýja árið öruglega að koma.

Höfundur er Hildigunnur Guðmundsdóttir, birt með góðfúslegu leifi hennar. Öll afritun bönnuð. Vefari er Guðmunda Hreinsdóttir

Jólasíða Systu, gerð 5 desember 2000,  http://www.islandia.is/systah/jólin_mín.htm

Jólasíða Systu    Andi liðinna Jóla    Æskujólin