Jóla sagan

Boðun Maríu

En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: "Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér."

En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. Og engillinn sagði við hana: "Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða."

Þá sagði María við engilinn: "Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?"

Og engillinn sagði við hana: "Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs.

Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, en Guði er enginn hlutur um megn."

Þá sagði María: "Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum." Og engillinn fór burt frá henni

Lagður í jötu

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi.

Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð.

En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.


Frelsari fæddur

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: "Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu." Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum,

og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: "Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss."

Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

Jólasíða Systu    Andi liðinna jóla    Jólaupphafið og trúin

 

Jólasagan/Jólasíða Systu, sköpuð 23. nóvember 2000: http://www.islandia.is/systah/jólasagan.htm