Eiríkur blóðöx Haraldsson

Eiríkur blóðöx Haraldsson, konungur í Noregi frá því um 928. Fæddur um 885 en heimildum ber ekki saman um lát hans 933-954. 

Foreldrar hanns voru Haraldur hárfagri Hálfdansson og Ragnhildur Eiríksdóttir.

Eiríkur var mikill maður og fríður, sterkur og hreystimaður mikill, hermaður mikill og sigursæll, ákafamaður í skapi, grimmur, óþýður og fálátur. Gunnhildur kona hans var kvinna fegurst, vitur og margkunnig, glaðmælt og undirhyggjumaður mikill og hin grimmasta. Öll voru börn Eiríks fríð og mannvæn.

K: Gunnhildur Össurardóttir, börn þeirra:

        a) Gamli, d. um 955.

        b) Guttormur, d. um 953.

        c) Haraldur II Noregskonungur,

        d) Ragnfreður, Noregskonungur,

        e) Ragnhildur,

        f) Erlingur konungur í Noregi, dáinn um 963. 

        g) Guðröður Noregskonungur,

        h) Sigurður slefa, d. um 964

Eiríkur var að fóstri með Þóri hersi Hróaldssyni í Fjörðum. Honum unni Haraldur konungur mest sona sinna og virti hann mest.

Þá er Eiríkur var tólf vetra gamall gaf Haraldur konungur honum fimm langskip og fór hann í hernað, fyrst í Austurveg og þá suður um Danmörk og um Frísland og Saxland og dvaldist í þeirri ferð fjóra vetur. Eftir það fór hann vestur um haf og herjaði um Skotland og Bretland, Írland og Valland og dvaldist þar aðra fjóra vetur. Eftir það fór hann norður á Finnmörk og allt til Bjarmalands og átti hann þar orustu mikla og hafði sigur.

Þá er hann kom aftur á Finnmörk þá fundu menn hans í gamma einum konu þá er þeir höfðu enga séð jafnvæna. Hún nefndist fyrir þeim Gunnhildur og sagði að faðir hennar bjó á Hálogalandi er hét Össur toti.

"Eg hefi hér verið til þess," segir hún, "að nema kunnustu að Finnum tveim er hér eru fróðastir á mörkinni. Nú eru þeir farnir á veiðar en báðir þeir vilja eiga mig og báðir eru þeir svo vísir að þeir rekja spor sem hundar, bæði á þá og á hjarni, en þeir kunna svo vel á skíðum að ekki má forðast þá, hvorki menn né dýr, en hvatki er þeir skjóta til þá hæfa þeir. Svo hafa þeir fyrirkomið hverjum manni er hér hefir komið í nánd. Og ef þeir verða reiðir þá snýst jörð um fyrir sjónum þeirra en ef nokkuð kvikt verður fyrir sjónum þeirra þá fellur dautt niður. Nú megið þér fyrir engan mun verða á veg þeirra nema eg feli yður hér í gammanum. Skulum vér þá freista ef vér fáum drepið þá."

Þeir þekktust þetta að hún fal þá. Hún tók línsekk einn og hugðu þeir að aska væri í. Hún tók þar í hendi sinni og söri því um gammann utan og innan.

Litlu síðar koma Finnar heim. Þeir spyrja hvað þar er komið. Hún segir að þar er ekki komið. Finnum þykir það undarlegt er þeir höfðu rakið spor allt að gammanum en síðan finna þeir ekki. Þá gera þeir sér eld og matbúa. En er þeir voru mettir þá býr Gunnhildur rekkju sína. En svo hafði áður farið þrjár nætur að Gunnhildur hefir sofið en hvor þeirra hefir vakað yfir öðrum fyrir ábrýðis sakir.

Þá mælti hún: "Farið nú hingað og liggi á sína hlið mér hvor ykkar."

Þeir urðu þessu fegnir og gerðu svo. Hún hélt sinni hendi um háls hvorum þeirra. Þeir sofna þegar en hún vekur þá. Og enn bráðlega sofna þeir og svo fast að hún fær varlega vakið þá. Og enn sofna þeir og fær hún þá fyrir engan mun vakið þá og þá setur hún þá upp og enn sofa þeir. Hún tekur þá selbelgi tvo mikla og steypir yfir höfuð þeim og bindur að sterklega fyrir neðan hendurnar. Þá gerir hún bending konungsmönnum. Hlaupa þeir þá fram og bera vopn á Finna og fá hlaðið þeim, draga þá út úr gammanum.

Um nóttina eftir voru reiðarþrumur svo stórar að þeir máttu hvergi fara en að morgni fóru þeir til skips og höfðu Gunnhildi með sér og færðu Eiríki.

Fóru þeir Eiríkur þá suður til Hálogalands. Hann stefndi þá til sín Össuri tota. Eiríkur segir að hann vill fá dóttur hans. Össur játar því. Fær þá Eiríkur Gunnhildar og hefir hana með sér suður í land.

(Haraldar saga Hárfagra)

Ættfræðisíða Systu 28 desember 2000.

Nafnaskrá