Véla og bíla ţjónusta Kristjáns ehf 470 Ţingeyri Iceland
sigkrist 2008
Vefmyndavél
Video
GJS Vélsmiðja
Vörur
Úr handraðanum
Myndasöfn
Tenglar
Heim
Vélsmiðja
Árið 1906 kom Guðmundur J. Sigurðsson heim úr vélsmíðanámi frá Danmörku en Gramsverslun á Þingeyri hafði styrkt hann til náms gegn því að hann ynni hjá þeim í einhvern tíma. Frá Danmörku tók Guðmundur með sér ný verkfæri sem nauðsynleg voru til smiðjureksturs. Þar á meðal voru skrúfstykki, handsnúin borvél og fótstiginn rennibekkur.
Þann 13 janúar árið 1913 stofnaði Guðmundur J. Sigurðsson ásamt Gramsverslun, Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar & Co. hf. og var einn af frumkvöðlum alhliða smiðjureksturs á Íslandi. Undir stjórn Guðmundar og síðar Matthíasar, sonar hans, átti smiðjan eftir að verða landsþekkt fyrir vandaða og góða þjónustu.

Árið 1918 voru keypt í smiðjuna ýmis ný verkfæri sem enn voru í notkun 1995 þegar GJS hætti starfsemi  Þar á meðal var stór borvél og tveir rennibekkir. Þessa góðu endingu verkfæranna má örugglega rekja til hve vel var gengið um hlutina í smiðjunni og brýnt fyrir mönnum að vera snyrtilegir. Ákveðnir siðir giltu líka í smiðjunni og þar lærðu menn líka mannasiði. Svo segir gamall nemi og starfsmaður úr smiðjunni frá:

[Við þurftum að] muna eftir að bjóða góðan daginn á morgnana og góða nótt á kvöldin. Hringja bjöllunni nákvæmlega klukkan 12 í matartíma og að loknum vinnutíma á kvöldin. Setja verkfærin á sinn stað eftir notkun inn á verkfæralagerinn. Byrja tímanlega að sópa og moka út spónum síðasta vinnudag vikunnar. Þá hafði ég það verkefni að skúra gólfið á skrifstofunni á hverjum mánudagsmorgni upp úr díselolíu. ... Og viti menn, það var eins og nýbónað á eftir.

Vélsmiðja Guðmundar J Sigurðssonar var einnig skóli í málmiðnum. Námið í smiðjunni var mjög fjölbreytt vegna þess hve alhliða smiðjureksturinn var. Þannig lærðu nemar "logsuðu, rafsuðu, rennismíði, járnsmíði í eldsmiðju, málmsteypu og eiginlega allt sem gert var í smiðju ..." Kristján Gunnarsson frá Hofi hóf nám í vélvirkjun árið 1962 í smiðjunni og segir hann svona frá náminu:

Við unnum í smiðjunni frá kl. 8 að morgni til kl. 16. Þá var farið heim og mætt í skólann kl. 17 til kl. 19. Þá var matarhlé og aftur farið í skólann kl. 20 til kl. 22. Þannig var það alla daga vikunnar. Á laugardögum var líka unnið í smiðjunni til kl. 18. ... Í skólanum [,sem var í litlu herbergi uppi á lofti í húsi Matthíasar Guðmundssonar,] var kennd iðnteikning, reikningur, málmfræði og vélfræði. Matthías kenndi þessar greinar í tímunum eftir kvöldmat. Svo var kennd bókfærsla, enska, danska og íslenska, sem aðrir kenndu þá fyrir kvöldmat.

Málmsteypa hófst í smiðjunni árið 1920. Fyrst í stað var settur upp stór ofn en fljótlega kom í ljós að ekki var hægt að reka slíkan ofn. Þá var farið út í það að nota svo kallaðar grafítdeiglur við málmsteypuna og var sú aðferð notuð allt til 1995 þegar smiðjan hætti rekstri. Kosturinn við að nota grafítdeiglu var sá að hægt var að steypa oft en það var nauðsynlegt þegar mikið lá á varahlutunum sem var verið að steypa.

Járnsteypan fer þannig fram að trémódeli sem gert er eftir varahlutnum sem á að steypa er komið fyrir í kassa og kvarts sandi, sem þolir allt að 1400 gráðu hita, var mokað í kassann. Sandurinn er síðan þjappaður mátulega og trémódelið tekið úr kassanum og skildi það eftir sig mót. Síðan er gert gat í sandinn (innrás) til þess að hella bráðnu járninu í mótið. Kassarnir eru síðan venjulega látnir standa yfir nótt eða á meðan járnið kólnaði. Síðan eru stykkin  tekin og unnið meira með þau og gerð að seljanlegri vöru.

Það, sem framleitt var í járnsteypunni, var mest varahlutir í bátavélar en einnig voru t.d. steyptar eldavélaplötur og ristar í eldavélar. Einnig voru steypt úr kopar skrúfublöð og skipsskrúfur.

Málmsteypan var mjög mikilvæg fyrir Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar einkum á stríðsárunum, 1939-1945, því að þá minnkaði mjög innflutningur á erlendum varahlutum í vélar og því var leitað til málmsteypanna hér á landi. Mjög mikið var að gera í "steypiríinu" eins og málmsteypan var kölluð. Mattíhas Guðmundsson segir frá þessu:

Við gátum steypt stimpla og stimpilhringi, glóðarkúlur og skrúfur á bátana. Það var mikil vinna í þessu, ógurlega mikil vinna. Alltaf var verið að smíða stimpla og glóðarkúlur og sent út um allt því það spurðist hvar var hægt að fá þetta. Þetta var stanslaust og það safnaðist fyrir óhemjumikið af módelum fyrir mismunandi vélatýpur.
Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar þjónaði að aðallega sjávarútveginum. Þó, þegar vélvæðing landbúnaðarins hófst, var farið að gera við heyvinnsluvélar og annað slíkt. Bílaviðgerðir hófust ekki fyrr en um 1970 í vélsmiðjunni.
Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar & Co. var rekin í yfir 80 ár eða frá 1913-1995.

Þess má geta að Kristján Gunnarsson sem getið er um í textanum hér að ofan rekur í dag
Véla og Bílaþjónustu Kristjáns ehf , sem er með málmsteypu og smiðjurekstur í húsnæði GJS. Enn er unnið með upprunalegu vélum og búnaði og með sömu aðferðum og notaðar voru
Á árum GJS &Co. Ef þú átt leið um Þingeyri eða nágrenni endilega kíktu við í "Smiðjunni" flesta daga er verið að móta, hella eða vinna eitthvað í vélum smiðjunnar og er gestum velkomið að skoða.
Það er ómetanleg lífsreynsla að sjá söguna lifna við fyrir framan mann enda má kalla smiðjuna LIFANDI SAFN. Einnig eru hér til hliðar tengingar á myndasöfn úr smiðjunni, bæði nýjar og eldri myndir.

Vertu Velkomin á Þingeyri
Heimildir:
Idan.is
Matthías Guðmundsson . Viðtal tekið 1987. Áður óútgefið efni en vitnað hefur verið í það að hluta áður.Mannlíf og saga í Þingeyrar og Auðkúluhreppum hinu fornu. Vestfiska forlagið 1997.

Stefán Atli Ástvaldsson
Þessi vefur er hýstur hjá Snerpu Internet
Íslandi
Viðgerð smiðju
Málmsteypa
Verkefni VBK
Hellt-2002
VBK-GJS
Eldsmiðja
netfang
Kristjan Gunnarsson
Skrifstofa-Lager
Ýmsar myndir
Myndir 2008
Námskeið
Myndir Davíð
Tenglar
Snerpa Internet
Þingeyrar vefurinn