Þorri konungur Snæsson

Þorri var konungur ágætur. Hann réði fyrir Gotlandi, Kvenlandi og Finnlandi. Hann blótuðu Kvenir til þess að snjóa gerði og væri skíðafæri gott. Það blót skyldi vera að miðjum vetri og var þaðan af kallaður þorramánuður.

Þorri konungur átti þrjú börn. Synir hanns hétu Nórr og Górr, en dóttir hanns Gói. Gói hvarf á brott og gerði Þorri blót mánuði síðar en hann var vanur að blóta og kölluðu þeir síðan þann mánuð, er þá hófst, gói.

Þeir Nórr og Górr leituðu systur sinnar. Nórr átti bardaga stóra fyrir vestan Kjölu, og féllu fyrir honum konungarnir Vé og Véi, Hundingur og Hemingur, og lagði Nórr það land undir sig allt til sjávar. Þeir bræður hittust í þeim firði, er nú er kallaður Nórafjörður. Nórr fór þaðan upp á Kjölu og kom þar, sem heita Úlfamóar. Þaðan fór hann um Eystri dali og síðan í Vermaland og með vatni því, er Vænir heitir, og svo til sjávar. Þetta land lagði Nórr undir sig, allt fyrir vestan þessi mörk. Þetta land er nú kallað Noregur.

Að miðjum vetri komu þeir í Heiðmörk. Þar var sá konungur fyrir, er Hrólfur í Bergi hét. Hann var sonur Svaða jötuns norðan af Dofrum og Ásthildar, dóttur Eysteins konungs, er lengi hafði ráðið fyrir Heiðmörk. Hrólfur í Bergi hafði tekið Gói og gengið að eiga hana. En er hún spurði til Nórs, bróður síns, þá fór hún á móti honum ásamt Hrólfi sem gaf sig upp í vals Nórs og gerðist hanns maður. Eftir það fór Nórr til veislu til mágs síns, og fékk Nórr Hödd, dóttur Svaða jötuns, systur Hrólfs. Eftir það fór Nórr konungur vestur aftur til sjávar, og hitti Górr, bróður sinn. Hann var þá komin norðan úr Dumbshafi og hafði eignast allar eyjar á þeirri leið, bæði byggðar og óbyggðar.

Þá skiptu þeir bræður ríkinu með sér, þannig að Nórr skyldi hafa meginland allt norðan frá Jötunheimum og suður til Álfheima. Það heitir nú Noregur. En Górr skyldi hafa eyjar allar, þær er láu á bakborða, er hann færi norðan með landi.

(Flateyjarbók)

 

Ættfræðisíða Systu 26 nóvember 2000.

Nafnaskrá